Á forsíðu
Dagbók    Ferilskrá    Myndir    Félagsstörf    Skrár    
Senda Sögu Jóns Póst
 

24.11.2006
´Sambúðarverkir gagnrýni

Fimmtudagur 23. nóvember 06
Hjörleifur Hjartarson
Kitlandi Sambúðarverkir
Sambúðarverkir eftir Júlíus Júlíusson, Frey Antonsson, Ingibjörgu Hjartardóttur, Lovísu Maríu Sigurgeirsdóttur, Arnar Símonarson og Sólveigu Rögnvaldsdóttur

Stjórn Leikfélags Dalvíkur á heiður skilinn fyrir þá hugmynd sem sem liggur að baki leiksýningunni „Sambúðarverkir” sem frumsýnd var í Ungó s.l föstudagskvöld. Hugmyndin var raunar einföld eins og allar góðar hugmyndir.

Sent var  bréf, síðsumars, til nokkurra ritfærra einstaklinga i Dalvíkurbyggð þar sem óskað var eftir einþáttungi. Höfundunum var efnið í sjálfsvald sett en umgerðin skyldi vera ótilgreind raðhúsíbúð  í samtímanum.

Uppskeran var aldeilis ágæt: fimm einþáttungar eftir sex höfunda sem allir voru ágætlega brúklegir til sviðsetningar eina notalega kvöldstund. Það kom svo í hlut Sögu Jónsdóttur leikstjóra að skeyta þáttunum saman í eina samhangandi leiksýningu og má sjá árangurinn á fjölum Ungó næstu vikurnar.

Saga hefur unnið frábærlega úr þeim efnivið sem hún hafði í höndunum. Til að skapa samfellu fer hún þá leið að búta einn þáttinn niður og nota sem millikafla á milli þátta og gengur það vel og áreynslulaust upp.  Þættirnir eru misjafnir að gæðum og einnig mislangir. Hefði að ósekju mátt fara með skæri á textann hér og þar  til að skerpa hann. Engu að síður hélt sýningin áhorfandanum  allan tímann með  þeirri spennu sem fylgir því að fá að gægast inn hjá ókunnu fólki og sjá hvað fer fram inna veggja heimilisins.  Allir voru þættirnir í léttum dúr og voru áhorfendur á frumsýningu vel með á nótunum frá upphafi og mikið hlegið. Sérstaklega vöktu einræður Alla Bergdal í milliköflunum mikinn hlátur enda landsfrægur atvinnuspaugari þar á ferð.

Stór hópur leikara tók þátt í þessari sýningu. Það vakti sérstaklega athygli mína og ánægju að sjá hversu vel hefur tekist til að manna verkið. Þarna var hópur af fólki sem ekki hefur sést á sviði LD áður, og það ánægjulega var að þetta var fólk á öllum aldri, önnum kafnir ungbarnaforeldrar og fjölskyldumenn á miðjum aldri sem æ sjaldgæfara er orðið að finna á fjölum samkomuhússins, í bland við yngra fólk sem á augljóslega  framtíðina fyrir sér í þessum bransa. Mér fannst leikararnir allir standa sig með stakri prýði. Hvert orð sem sagt var á sviðinu skilaði sér fram í salinn, framvindan þétt og ákveðin, engir verulegir hnökrar voru í leik, og margir sýndu kostuleg tilþrif. Ég ætla ekki að nefna neinn öðrum fremur í þeim efnum en það heyrir til undantekninga hvort heldur er hjá Leikfélagi Dalvíkur eða öðrum áhugafélögum að ekki sé í það minnsta einn í leikarahópnum sem er til óþæginda fyrir áhorfandann; tafsar eða muldrar, leikur áberandi illa, ofleikur  eða einfaldlega tollir ekki í karakter. Í þessari sýningu er enginn slíkur veikur hlekkur og þó er þarna stór hópur að ósviðsvönu fólki og margar helstu leikspírur LD fjarri góðu gamni. Ég vona svo sannarlega að við eigum  eftir að sjá allt þetta fólk aftur á sviðinu í Ungó, þá er nú aldeilis bjart framundan hjá því góða leikfélagi.

 Tvennt í viðbót vil ég nefna sem gladdi mig en það er annars vegar lýsningin og hins vegar leikmyndin. Ljósamál LD hafa yfirleitt verið í góðu lagi en hin síðari ár hefur Pétur Skarphéðinsson  fært lýsingarmálin á annað og hærra plan. Aftur á móti hefur einhver sjálfsþurftarbúskaparhallærisgangur oft verið í gangi hvað leikmyndir varðar. Nú hefur hins vegar verið leitað til fagmanns með leikmynd og hefur það mikið að segja með heildarútkomuna. Búningarnir sluppu vel fyrir horn.  

 Ég er sem sagt í stærstum dráttum ánægður með þessa sýningu.  Það er greinilega nóg hér af hæfileikafólki sem tilbúið er að þjóna leiklistargyðjunni. Ég vona svo sannarlega að fleiri verkefni bíði þessa hóps. Það er orðið langt síðan LD setti upp klassískt leikhúsverk. Ég myndi gjarnan vilja sjá þennan leikhóp glíma næst við eitthvað meira krefjandi fyrir bæði leikara og áhorfendur. En um leið  óska ég félaginu til hamingju með þetta úrval af frambærilegum leikskáldum á þess vegum. Ég hvet forráðamenn LD til að halda áfram að leita í þeirra smiðju og leggja þeim jafnframt til dramatúrgíska  leiðsögn svo þeir nái að þroskast  og blómstra sem höfundar  í framtíðinni.

Hjörleifur Hjartarson



Til baka


Saga Geirdal Jónssdóttir | saga@sagajons.is |