Ágætu félagar.
Á þessu ári sem liðið er frá síðasta aðalfundi hefur ýmislegt gerst, margt ágætt
og annað miður eins og gengur. Starfsemin hefur verið heilmikil og fjölbreytt.
Stjórnin hefur haldið 14 stjórnarfundi, lagabreytinganefnd unnið mikið og gott
starf, félögum var boðið að koma og skoða leikhúsið fljótt eftir flutningana
og félagsfundur var haldin 4. maí í leikhúsinu, þar sem lögð voru fram drög að
lagabreytingum svo að félagar hefður góðan tíma til að skoða þau fyrir aðalfund.
Einnig var þar farið yfir samninginn við Akureyrarbæ. Þetta var ágætur fundur
þar sem 18 félagar mættu.
Fyrir síðasta aðalfund var búið að frumsýna leikritið Erling eftir Ingvar Arnbjörnsen
í Freyvangi 11.september ´2003 í samvinnu við Sögn ehf. Frumsýning var í Reykjavík
13. september.
Leikarar voru Stefán Jónsson , Jón Gnarr, Hildigunnur Þráinsdóttir Skúli Gautason
og Gísli Pétur Hinriksson . Leikstjóri var Benedikt Erlingsson.leikmynd gerði
Axel Hallkell Jóhannesson og lýsingu önnuðust Ingvar Björnsson og Björn Bergsteinn
Guðmundsson. Sýningin fékk bestu dóma og ljómandi fína aðsókn. Sýningar urðu 14
áhorfendur 1706 Strax síðastliðið haust var hafinn undirbúningur og vinna
við nýtt íslenskt leikrit og einnig hófust æfingar á leikritinu Ástarbréf eftir
A.R.Gurney. Þessi sýning byggðist á lestri bréfa tveggja einstaklinga og fylgst
með lífi þeirra og starfi í gegnum þau. Leikarar voru tveir, undirrituð og Þráinn
Karlsson, umsjón með sýningunni hafði Þorsteinn Backmann. Frumsýnt var í Ketilhúsinu
23. október, sýningar urðu 6 áhorfendur 253 . Litið fór fyrir sýningunni, lítil
kynning og auglýsingar af skornum skammti. Æfingar hófust á Draumalandinu eftir
Ingibjörgu Hjartardóttur í byrjun nóvember, leikarar og leikstjóri unnu mikla
vinnu með höfundi og tók leikritið miklum breytingum á æfingaferlinu.
Leikarar, Hildigunnur Þráinsdóttir, Saga Jónsdóttir, Þráinn Karlsson og Skúli
Gautason. Leikstjóri, Þorsteinn Backmann, leikmynd gerði Þórarinn Blöndal, búninga
Kristín Sigvaldadóttir og lýsingu annaðist Ingvar Björnsson. Frumsýnt var í leikhúsinu
6. mars við afar góðar móttökur leikhúsgesta og þá var gaman. En daginn eftir
kom gagnrýni í Morgunblaðinu sem var þvílíkt niðurrif að ég leyfi mér að efast
um að annað eins hafi sést í leikhúsgagnrýni. Allstaðar var rætt um þessa gagnrýni
og miklar umræður urðu um hana í bæjarfélaginu og víðar. Talaði t.d. gagnrýnandinn
um að huga þyrfti að´innra starfi í LA?? Hvaðan sem hann hafði þá hugmynd. Þessi
gagnrýni og aftur litlar auglýsingar, kynning í algjöru lágmarki gerðu það m.a.
að verkum að sýningin gekk alls ekki sem skyldi og sýningar sem áttu að vera um
páska teknar út. Sýningar urðu því 8 og áhorfendur 871. Á frumsýningu var opnuð
myndasýning um líf og starf Jóns Norðfjörð á Borgarasal. Þráinn Karlsson hafði
veg og vanda að uppsetningu hennar og tókst hún mjög vel. Syningin Eldað með
Elvis eftir Lee Hall í leikstjórn Magnúsar Geirs Þórðarsonar var næst á dagskrá.
Þetta var samstarfsverkefni LA og menningarfélagsins Eilífs.
Sýningar á Eldað með Elvis hófust hér 2. apríl , 8 sýningar gestir 1311. Leikarar
: Álfrún Örnólfsdóttir, Steinn Ármann Magnússon, Halldóra Björnsdóttir og Friðrik
Friðriksson. Sýningin fékk ágæta aðsókn og þurfti að bæta við sýningum og var
það gert um páska. Arnar Jónsson kom hingað með sýningu sína Sveinstykkið 24.
apríl og Búkolla eftir Hildigunni Þráinsdóttur var tekin upp og sýndar 2 sýningar
í byrjun apríl. Nú á nýju leikári hafa komið hingað sýningar úr höfuðborginni
fyrst var Brim eftir Jón Atla Jónasson sýnt hér þrisvar helgina 10. og 11. september,
áhorfendur 415. Þessi sýning var samstarfssýning LA og Vesturports. Leikstjóri
Hafliði Arngrímsson leikarar: Ingvar E. Sigurðsson, BJörn Hlynur Haraldsson, Ólafur
Egilsson, Nína Dögg Filipusdóttir, Gísli Örn Garðarsson og Víkingur Kristjánsson.
Var gerður góður rómur að þessari sýningu og uppselt á þær allar. Þá kom hingað
söngleikurinn Hárið, mikil og stór sýning sem var sýnd í Íþróttahöllinni. Kom
sýningin hingað í samstarfi við LA og íþróttafélagið Þór kom að þessu samstarfi
líka. Bæjarbúar og nærsveitarmenn fjölmenntu og bæta varð við miðnætursýningu,
áhorfendur urðu 2700. Leikstjóri er Rúnar Freyr. Þann 1. október var svo frumsýnt
leikritið Svik eftir Harold Pinter í samvinnu við Annað svið, Sögn ehf. Og Leikfélag
Reykjavíkur. Leikstjóri er Edda Heiðrún Backmann leikmynd Jón Axel Björnsson,
lýsingu annaðist Benedikt Axelsson búningahönnun Filipía Leikarar: Felix Bergsson,
Johanna Vigdís Arnardóttir, Ingvar E. Sigurðsson og Skúli Gautason. Hljóðfæraleikari
er Gunnar Hrafnsson.
Æfingar fóru að mestu fram í Reykjavík en síðustu dagana hér í leikhúsinu. Sýningin
hefur fengið góða dóma og eru sýningar í fullum gangi hér en sýningar verða síðan
sunnan heiða.
Leikhúsið gekk í endurnýjun lífdaga og starfsemin fór fram á smíðaverkstæðinu
í um það bil hálft ár við lélegar aðstæður og þröngan fjárhag. Þetta hafði sín
áhrif á starfið.
Leikhúsið átti að vera tilbúið um áramót en það dróst því miður og var afhent
þegar komið var fram í febrúar. Tóku þá aftur við flutningar og tiltekt á smíðaverkstæði
og í leikhúsi.
Sitt sýndist hverjum um þær breytingar og lagfæringar sem gerðar höfðu verið
á Samkomuhúsinu og var mál manna að alltof lítið pláss hefði komið útúr nýrri
viðbyggingu. Hliðarsvið ekkert, lítil aðstaða eftir sem áður fyrir leikmyndir
og til að athafna sig við sviðið fyrir leikara og aðra starfsmenn, og illilega
hljóðbært. En að sjálfsögðu var margt ágætt, músarhelt og hlýtt er orðið í húsinu.
Lyfta komin í húsið, Borgarasalurinn stærri og hægt að ganga þar út á stórar
svalir sem strax urðu vinsælar hjá leikhúsgestum. Ingvar Björnsson var tengiliður
okkar varðandi endurbæturnar og fylgdist hann vel með og kom mörgum breytingum
í gegn sem voru til hins betra. Vil ég leyfa mér að þakka honum hér fyrir hans
aðild að því. Allt umhverfi leikhússins hefur tekið miklum stakkaskiptum. Þó svo
að allt væri ekki eins og best var á kosið þá vorum við auðvitað ánægð með framkvæmdirnar
svo langt sem þær náðu. Það var mikill hugur í starfsfólkinu og andi góður, við
afar fegin að vera komin aftur í leikhúsið. Menningarhúsið, sem var töluvert
í umræðunni haustið 2003, átti greinilega að verða að veruleika. Það hafði alltaf
verið rætt um það að leikfélagið fengi og ætti að sjálfsögðu að fá aðstöðu þar,
en í nóvember urðu þær vonir að engu. Það kom fram hjá Akureyrarbæ að ekki væri
gert ráð fyrir LA í húsinu og jafnvel yrði enginn með fasta starfsemi þar! En
við gætum jú leigt það fyrir einstaka sýningar!
Þorsteinn Bachmann leikhússtjori sagði upp starfi sínu um síðustu áramót og hafist
var handa með að finna annan. Ákveðið var að auglýsa ekki starfið heldur leita
eftir einstaklingum sem hefðu áhuga á að starfa hér. Það var ljóst að enn og aftur
var fjárhagurinn afar slæmur og vandi leikhúsráðs og félagsins mikill við að halda
úti starfsemi svo sómi væri að. Samningar við Akureyrarbæ stóðu fyrir dyrum. Samninganefnd
var skipuð Sögu Jónsdóttur, Karli Frímannssyni og Ingibjörgu Ösp Stefánsdóttur.
Það varð strax ljost að upphæð styrksins yrði ekki breytt og voru það mikil vonbrigði.
Aðalmál samningfundanna var stjornunarfyrirkomulagið hjá LA! Og í þeim drögum
sem gerð voru hjá Akbæ. kom fram krafa um algjöran aðskilnað stjórnar LA og reksturs
atvinnuleikhússins! Það var meginmarkmið samningsins. Leikhúsráð átti að bera
alla ábyrgð á rekstrinum, nema fjárhagslega, sem var félagsins, og þeir aðilar
sem voru í leikhúsráði skyldu vera til loka samningsins. Það stefndi sem sagt
í það að leikhúsráð færi að lifa sjálfstæðu lífi án nokkurs samráðs við stjórnina.
En í lögum LA segir að tilgangur félagsins sé að reka atvinnuleikhús á Akureyri
og það er Leikfélag Akureyrar sem fær styrkina til rekstursins. Atriði í þessum
samningi brutu einnig í bága við lög LA og sagðist ég ekki skrifa undir slíkan
samning. Samt sem áður lögðu Karl og Ingibjörg mikla áherslu á það að þessi drög
yrðu samþykkt! Eftir mikið japl jaml og fuður tókst að laga samninginn þannig
að hægt var að skrifa undir hann, en það gerði ég með fyrirvara um samþykki aðalfundar.
Tel ég að Akureyrarbær hafi þarna verið að seilast alltof langt í afskiptum af
frjálsu félagi. Ég hafði fengið Kjartan Ólafsson til liðs við mig í samningaþrefinu
. Það er kannski rétt að skýra það aðeins að þegar ég varð formaður þá var ég
fastráðinn starfsmaður og mátti þarafleiðandi ekki vera í leikhúsráði, sama var
um Þráinn Karlsson sem þá var í stjórninni. Fram að því hafði stjórnin alltaf
verið með sína tvo fulltrúa í leikhúsráði, formaður LA ætíð verið formaður leikhúsráðs.
Pressa var á okkur að fá nýja ferska strauma í leikhúsráðíð, fengum við Karl Frímannsson
og Sigmund Erni Arngrímsson til liðs við okkur, einnig var þá Sigrún Björk Jakobsdóttir
fulltrúi bæjarins í ráðinu. Sú einkennilega staða var því um tíma að leikhúsráðið
var skipað fólki sem ekki var í leikfélagi AK. Óskaði ég reyndar eftir því fyrir
síðasta aðalfund að þeir félagar Karl og Sigmundur gengju í félagið en það varð
ekki af því. Akureyrarbær tók sinn fulltrúa út úr leikhúsráði eftir gerð samningsins,
þegar ábyrgð leikhúsráðs var orðin þetta mikil. Skipuðum við Kjartan Ólafsson
í staðinn, þar með var allavega einn leikfélagsmaður í ráðinu.
Í febrúar kom frá leikhúsráði að engum yrði sagt upp í leikhúsinu, reynt yrði
að leita allra leiða til að halda úti starfseminni og frábært starfsfólk Leikfélagsins
varp öndinni léttar og sá fram á skemmtilega tíma eftir rót og erfiðleika síðustu
mánaða. Skömmu seinna frétti formaður útí bæ að búið væri að leggja niður smíðaverkstæði
félagsins! Magnús Geir Þórðarson var ráðinn sem leikhússtjóri frá 1. apríl og
um miðjan þann mánuð var hann búinn að segja upp sex manns af tíu! Kom þessar
uppsagnir formanni einnig í opna skjöldu. Fljótlega eftir þetta óskaði Þráinn
Karlsson eftir að hætta í stjórninni og tók Kjartan Ólafsson sæti hans. Þá var
skipt um merki félagsins án þess að formaður vissi eða kæmi þar nærri. Ég veit
að m.a. vegna fjárhagsörðugleika þá var gripið til uppsagna en einnig var sagt
að það hafi þurft að hreinsa til. Deyfð og drungi litaði starfið á vordögum engar
æfingar hafnar á nýju verki eins og búist hafði verið við, og smám saman fór starfsfólkið
að týna tölunni. Allt kapp var lagt á markaðsmálin og margt gott hefur komið útúr
því, heimasíða félagsins komin í fínt horf, búið að tölvuvæða miðasöluna ofl.
hefur verið gert sem ber að þakka. Og víst er að það gekk vel að selja aðgangskortin
nú í haust og sýningarnar undanfarið gengið vel og er það hið besta mál. Það
finnst kannski einhverjum skjóta skökku við að ég skuli ekki vera himinlifandi
yfir ástandinu, mikil aðsókn og margar sýningar á vetrardagskránni hvað er þá
að?. Það má skilja það og lesa í fjölmiðlum undanfarið að nú fyrst séu fyrsta
flokks listamenn að starfi hjá LA. Nú fyrst ætlar LA að ná í áhorfendur utan Eyjafjarðarsvæðisins
og nú fyrst er LA virkur þátttakandi í leikhúslífi þjóðarinnar! Og þetta er kynnt
sem ný stefna Leikfélags Akureyrar. Einangrunin er sem sagt rofin! Eða hvað!.
Við höfum í áratugi fengið hingað marga af bestu listamönnum þjóðarinnar til
liðs við okkur, sett upp margar frábærar sýningar sem standast fyllilega samanburð
við það besta annarsstaðar og gestasýningar hafa komið hingað árum saman. Leiksýningar
héðan hafa farið um landið og sýningar okkar sýndar í Reykjavík.
Hvert er hlutverk Leikfélags Akureyrar? Fáum við þessa styrki til að styðja við
aðra leikhópa og önnur leikhús. Viljum við að flestar sýningar “okkar” séu æfðar
og unnar í Reykjavík og komi svo hingað?.
Er það vilji bæjaryfirvalda og ríkis? Eða viljum við hafa öflugt, metnaðarfullt
leikhús hér í bænum með okkar listafólk og starfsfólk?
Kannski er þetta þróun sem ekki er hægt að sporna við og kannski er þetta eina
færa leiðin þegar fjárhagurinn er slæmur. Ég vil ekki trúa því og vona að leikhúsið
okkar verði sá menningarhvati hér í bæ, sem og annarsstaðar, sem það á að vera.
Hinsvegar vil ég trúa því að þetta sé tímabundið ástand, þetta leikár, annað tel
ég óásættanlegt.
Nú þegar sameining sveitarfélaga stendur fyrir dyrum sé ég fyrir mér leikfélagið
sem nokkurs konar regnhlífarsamtök leikhúsáhugafólks á Eyjafjarðarsvæðinu, sterkt
og öflugt félag sem á rætur sínar hér á svæðinu.
Það er sorglegt til þess að vita að við séum búin að missa frá okkur, og jafnvel
úr bænum frábært starfsfólk sem hefur unnið með okkur af krafti og áhuga í fjölda
ára. Ég vil þakka þessu fólki fyrir þeirra starf og samstarfið, stjórnarmeðlimum
gott og mikið samstarf og óska Leikfélagi Akureyrar velfarnaðar á ókomnum tímum.
|